Gólfið er einn mikilvægasti þátturinn þegar þú vilt skapa ákveðinn stíl heima hjá þér. Viðargólf er bæði fallegt og þægilegt til að ganga á. Það sem þér líkar best hvað varðar útlit, viðkomu, lit og viðhald ættu að vera helstu íhugunarefnin í vali þínu á gólfefni.

Gólfið og rýmið

Gólf – veggir – loft: Grundvallaratriðin þrjú sem saman skapa rýmið. Samspil þessara þriggja flata getur breytt heildarsvipnum og veltur það á vali lita, forma, lýsingar o.s.frv. Gólfið veitir rýminu undirstöðu, vægi og karakter og er einnig grundvöllur fyrir öðrum þáttum á borð við val á húsgögnum og skrautmunum. Gólfið er þar sem tíska og stíll mæta notagildi.

Gólfið er grundvöllurinn

Gólf er svo miklu meira en eitthvað til að ganga á. Gólfið, ásamt veggjum og lofti, gefur rýminu grunnútlitið. Þegar þú hannar heimili þitt ættir þú mögulega að hugleiða gólfefnið fyrst af öllu. Gólfið er grunnurinn – þú getur alltaf málað veggina og loftið upp á nýtt en gólfið er varanlegra. Útlit gólfsins, þ.e. liturinn, yfirborðið, mynstrið og harkan, getur verið mjög breytilegt eftir viðartegundum. Hægt er að velja ljóst og rólegt birki eða hlyn, meðalveginn með eik eða beyki eða dökka og líflega valhnotu eða jarrah-rauðvið. Aflaðu þér eins mikilla upplýsinga og þú mögulega getur um mismunandi viðartegundir og hvað þær gætu gert fyrir þig á heimili þínu. Gólfið þitt setur tóninn.

Hvaða lit ætti ég að velja?

Ljósan, dökkan eða náttúrulegan? Litur gólfsins hefur mikil áhrif á hvernig fólk skynjar rýmið. Dökkt gólf „gleypir“ mikla birtu en skapar einnig hlýja og notalega tilfinningu. Ljóst gólf endurkastar birtunni og gerir rýmið stærra.

Hvernig gólf hentar rýminu mínu best?

Hvar ætlarðu að leggja gólfefnið – og hversu miklum ágangi mun það verða fyrir? Lakkað yfirborð auðveldar þrif. Olía dregur fram fíngerða formgerð og æðamynstur viðarins og styrkir náttúrulegan lit hans. Einnig ætti að íhuga hörku viðarins og hvort það eigi að vera mögulegt að slípa gólfið aftur.

Lökkuð eða olíuborin gólf?

Yfirleitt endurkastar lakkað yfirborð ljósi meira en olíuborið. Undantekning frá þessari reglu er viður sem meðhöndlaður er með ultra-matta lakkinu okkar – sem fær gólfið til að vera í viðkomu og útliti eins og ómeðhöndlað, nýsagað timbur. Yfirborð með möttu lakki er grófara en yfirborð með silkimöttu lakki.

Hvaða gerð af gólfefni hentar best stærðinni á rýminu mínu?

Tilfinning fyrir stærð herbergis stjórnast af breidd og lengd plankanna, og einnig af fjalamynstri gólfefnisins. Almenna reglan er að nota eins eða tveggja stafa gólfefni fyrir stórt rými og þriggja stafa fyrir minni rými. Breiðir og langir plankar henta yfirleitt best fyrir stærri rými – en það eru undantekningar á öllum reglum!

Hvaða hönnunareiginleikar eru til staðar?

Áhrifin sem gólfið hefur veltur bæði á því sem þú sérð og því sem þú finnur. Mörg gólfefnanna okkar hafa yfirborð sem hefur verið handheflað og/eða burstað til að ná fram einstakri patínu sem höfðar til allra skynfæra þinna. Bæta má enn frekar við útlitið með plönkum sem hafa fasaðar brúnir.

Stílhreint eða hrjúflegt viðargólfefni?

Stílhreint, látlaust og fágað – eða hrjúflegt, íburðarmikið yfirborð, kvistir og sprungur? Kährs býður upp á úrval gólfefna með mismunandi áferð og hver þeirra hefur ákveðin sérkenni. Áferðin fer eftir því hvaða hluti trésins er notaður þegar hver fjöl er framleidd. Við notum einnig margar aðferðir við yfirborðsmeðhöndlun til að skapa margbreytni stíltegunda.

Á hvaða hátt getur náttúruleg birta haft áhrif á val viðargólfefnis?

Gott er að hafa önnur einkenni rýmisins í huga. Með því að leggja gólfefnið langsum gerir þú lögun rýmisins meira áberandi. Einnig mun ljóst gólf ásamt ljósum veggjum láta rýmið líta út fyrir að vera stærra, á meðan dökkt gólf gefur rýminu meiri festu. Dökkt gólf ásamt dökkum veggjum láta rýmið líta út fyrir að vera minna – en getur gert það hlýrra og notalegra.

Í hvaða átt á ég að leggja gólfefnið?

Hvernig birta er í rýminu? Náttúruleg birta, stærð glugga, önnur lýsing og stefna ljóssins, allt hefur þetta áhrif á hvernig maður skynjar gólfið. Almenna reglan er að leggja gólfefnið langsum í átt að glugga. Ef rýmið er langt og mjótt með gluggum við enda verður þú að velja hvort þér finnst mikilvægara að leggja áherslu á – lögunina eða birtuna.

Get ég blandað saman ólíkum gólfefnum?

Góð aðferð við að skapa samræmi á heimilinu þínu er að velja gólfefni sem passa saman en eru ákjósanleg fyrir hvert rými fyrir sig. Þú gætir til að mynda valið eins stafs gólfefni á stofuna og sams konar þriggja stafa gólfefni fyrir svefnherbergið. Með því að velja þröskulda og gólflista úr sama við fæst enn betri heildarsvipur.

Hvernig á ég að sjá um viðargólfið mitt?

Viðargólfin okkar eru slitsterk og auðveld í umhirðu. Með réttu viðhaldi heldur viðargólfið þitt fegurð sinni um ókomin ár. Það er engu að síður gott að hafa í huga að olíuborin gólf krefjast meira viðhalds en lökkuð gólf. Það er einnig gott að vita að ljós og ljóslituð gólfefni eru viðkvæmari fyrir sliti en dökk gólfefni.